Innlent

Sky lokar á íslenska áskrifendur

Sky hefur ákveðið að loka fyrir íslenska áskrifendur. Ástæðan er að íslensk fyrirtæki auglýsa áskrift að stöðinni en fyrir því hafa þau ekki leyfi. Undarið hefur borið talsvert á að íslensk fyrirtæki auglýsi áskriftir af Sky-sjónvarpsstöðvunum þar sem í boði eru sjónvarpsþættir, kvikmyndir og enski boltinn svo eitthvað sé nefnt. SMÁÍS, Samtök myndrétthafa á Íslandi, segir þessar aðila engar heimildir hafa til að selja þessa þjónustu þótt sumir hverjir gefi sig út fyrir það. Ástæðan er sögð sú að efnisréttindi af flestu því efni sem sýnt er á Sky hafi verið keypt af íslenskum fjölmiðlum fyrir íslenskan markað sem greiði fyrir það hátt verð til eiganda efnisins. Sky hefur keypt samskonar rétt en þeirra heimildir gilda þó einungis fyrir Bretland. Því er sala áskriftar af Sky-sjónvarpsstöðvunum hér á landi án allra heimilda brot á lögum um höfundarrétt og útvarpslögum. Vegna þessa hefur Sky ákveðið fyrir tilstuðlan SMÁÍS að loka á öll íslensk krítarkort sem borga áskriftir af stöðvum þeirra. Í tilkynningu frá SMÁÍS segir að ekki sé útilokað að grípa til frekari aðgerða gegn þeim aðilum hér á landi sem bjóða áskrift að Sky eða öðrum stöðvum en hafi ekki tilskili leyfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×