Innlent
Dag hvern slasast fimm aldraðir
Flest slys innan veggja heimilisins urðu í svefnherbergi, stofu eða í eldhúsi.Þetta kemur fram í skýrslu sem Landlæknisembættið hefur tekið saman. Hún er byggð á gögnum Slysaskrár Íslands og slysadeildar Landspítans. Í skýrslunni kemur fram að árið 2003 leituðu samtals 1.835 einstaklingar 65 ára og eldri til slysadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss. Fall var langalgengasta orsök áverka sem fólkið hlaut eða í rúmlega 67 prósentum tilvika. Alvarlegustu meiðslin voru beinbrot, oftast á framhaldlegg en einnig á lærlegg. Nærri 600 manns í þessum aldurshópi hlutu beinbrot af einhverju tagi árið 2003. Af þeim hópi eldri borgara sem leitaði til slysadeildar á árinu fór langstærsti hópurinn heim að lokinni skoðun eða 75 prósent. Leggja þurfti 18 prósent þeirra sem lentu í slysunum inn á spítala.