Innlent

Reyndi að stytta sér aldur

Karlmaður sem sennilega er ættaður frá Alsír reyndi að stytta sér aldur þegar starfsmenn alþjóðadeildar Ríkislögregustjóra birtu honum í gær þann úrskurð að hann fengi ekki hæli hér á landi sem pólitískur flóttamaður. Þetta átti sér stað í gistiheimili þar sem maðurinn hefur dvalið í nokkra mánuði eftir að hann kom hingað til lands. Þegar það rann upp fyrir manninum að það ætti að vísa honum úr landi greip hann til eldhússhnífs og reyndi að skera sig á púls en náði ekki að rjúfa slagæðar vega bitleysis í hnífnum. Hann kastaði honum þá frá sér, greip brúsa með kveikjarabensíni, hellti innihaldinu í skyndingu yfir sig og ætlaði að fara að kveikja í með kveikjara sem hann hafði á sér. Lögreglumenn sprautuðu þá á hann úr maze-brúsa og við það stilltist hann. Var hann síðan fluttur á lögreglustöðina í Keflavík þangað sem læknir kom og skolaði úr augum hans og hann fékk að skola af sér í sturtu, áður en hann var fluttur á heilsugæslustöðina þar sem gert var að skrámum á úlnliðum hans eftir eldhúshnífinn. Hann var síðan vistaður í fangageymslu lögreglunnar í Reykjavík í nótt og hélt utan til Spánar í morgun í fylgd tveggja lögreglumanna en þar var hann búinn að sækja um hæli áður en hann kom til Íslands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×