Innlent

Götum borgarinnar lokað í hádeginu

Vörubílstjórar sem hyggjast loka fyrir umferð úr höfuðborginni í dag ætla ekki að láta sér segjast þrátt fyrir eindregin tilmæli lögreglu. "Við gætum farið af stað í kringum hádegið," sagði Sturla Jónsson, talsmaður þeirra, í gærkvöldi. "Ég á von á því að fjörutíu til fimmtíu bílar taki þátt, en sjáum til hvort þeir mæta allir þegar á hólminn er komið." Lögreglan í Reykjavík fundaði í fyrrakvöld með helstu forsvarsmönnunum. "Við skýrðum málið vel fyrir þeim og reyndum að tala þá ofan af þessu," segir Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn. Hann segir lögregluna munu beita öllum tiltækum ráðum. "Aðgerðir af þessu tagi geta haft grafalvarlegar afleiðingar og því reynum við að sjálfsögðu að koma í veg fyrir þær." Sturla gefur ekki mikið fyrir tal um að slysahætta stafi af uppátækinu þar sem allar götur verði stoppfullar af bílum. "Ég get ekki séð að neinn geti stundað ofsaakstur þegar engin akrein er til að aka eftir."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×