Innlent

Tekinn á 208 km hraða

Lögreglan í Keflavík stöðvaði ökumann á Reykjanesbraut í nótt eftir að bíll hans hafði mælst á tvö hundruð og átta kílómetra hraða og próflausir guttar stútuðu meðal annars brunahana í Þorlákshöfn svo upp kom gosbrunnur. Hámarkshraði þar sem ökumaðurinn á Reykjanessbrautinni var stöðvaður er níutíu kílómetrar. Hann var því hundrað og átján kílómetrum yfir leyfilegum hámarkshraða og tæplega þrjátíu kílómetrum yfir tvöföldum hámarkshraða. Þessi hraði sprengir alla sektarskala og fer mál ökumannsins því væntanlega til ákæruvaldsins vegna þunga brotsins. Það voru fleiri á hraðferð því íbúar Þorlákshafnar vöknuðu upp við þann vonda draum klukkan sex í morgun að bíl var ekið um bæinn af miklum glannaskap og meðal annars utan í brunahana. Hann brotnaði svo vatnsstrókur stóð upp í loftið eins og í amerískum bíómyndum. Lögreglunni á Selfossi var gert viðvart og rétt fyrir utan bæinn mættu þeir bílnum á miklum hraða. Lögreglan sneri þegar við og veitti bílnum eftirför eftir ströndinni og yfir Óseyrarbrú á mikilli ferð en á móts við Eyrarbakka nam bíllinn staðar þar sem sprakk á einu dekkinu. Kom þá í ljós að um borð voru þrír sextán ára strákar, allir auðvitað próflausir, sem höfðu stolið bílnum af verkstæði í Kópavogi og brugðið undir sig betri fætinum. Það er að frétta úr Þorlákshöfn að nokkur gígur myndaðist við brunahanann vegna vatnsaga og þurfti að taka vatn af bænum í tíu mínútur til að loka fyrir rennsli að hananum. Þeir eru nú í vörslu Selfosslögreglunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×