Innlent

Veikur af vosbúð við Kárahnjúka

"Minn maður liggur fárveikur eftir kulda og vosbúð á Kárahnjúkum," sagði Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Ólafs Páls Sigurðssonar, þegar gerð var tilraun til að þingfesta mál á hendur honum fyrir að sprauta grænu skyri á gesti álráðstefnu á hótel Nordica í Reykjavík um miðjan júní. Arna Ösp Magnúsardóttir Einnig sætir ákæru fyrir sama glæp , en hún er enn stödd austur á Héraði í mótmælatjaldi við Kárahnjúka. "Þótt hún sé á leiðinni í bæinn er það of seint," sagði Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari í Reykjavík og frestaði þingfestingu málsins fram í byrjun september. Þriðji maðurinn sem sömu ákæru sætti, Bretinn Paul Geoffrey Gill, var í byrjun mánaðarins dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi, en skaðabótakröfum upp á tæpar 2,9 milljónir króna var vísað frá. Í ákæru er tjónið sem skyrsletturnar ollu metið á tæpar 2,3 milljónir króna. Meðal annars eyðilagðist IBM Thinkpad T41 fartölva, AG Neovo 17 tommu tölvuskjár, IBM Thinkvision snertiskjár, þrír hljóðnemar og stórt sýningartjald.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×