Innlent

Ósáttur við DV fékk tvo mánuði

Jón Trausti Lúthersson var í gær dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir að hafa í október í fyrra ráðist á þáverandi fréttastjóra DV. Jón Trausti ruddist með tveimur félögum sínum inn á ritstjórn blaðsins í Reykjavík og vildi hitta fyrir ritstjóra. Hann kvaðst fyrir dómi hafa verið ósáttur við ítrekaðar myndbirtingar af honum í blaðinu og taldi mannorð sitt hafa verið eyðilagt. Þegar mönnunum var vísað á dyr með þeim orðum að panta þyrfti viðtal hjá ritstjóranum, sem ekki var í húsi, tók hann fréttastjórann kverkataki þannig að hann sortnaði fyrir augum, auk þess sem hann marðist á hálsi. "Ofbeldisfullt framferði ákærða var rustafengið, ófyrirleitið og með öllu tilefnislaust," segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og talið ljóst að Jón Trausti og félagar hans "hefðu ekki kinokað sér við að beita líkamlegu ofbeldi ef þeir hefðu ekki orðið sáttir við svör og þá fyrirgreiðslu er þeir sóttust eftir hjá ritstjóra DV." Dóminn kvað upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×