Innlent

Fékk refsilækkun fyrir aðstoðina

64 ára gömul hollensk kona sem gripin var í Leifsstöð með 759 grömm af kókíni falin í sérsaumaðri hárkollu fékk refsingu mildaða í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, vegna þess hve hún var samvinnuþýð við lögreglu. Konan var dæmd í eins og hálfs árs fangelsi. Búast má við að hún fái reynslulausn eftir að hafa setið inni helming þess tíma, en hún hefur verið í afplánun síðan 4. mars og gæti því verið laus úr haldi eftir hálft ár. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður konunnar, segir viðurlögin sem konan er beitt mjög hófleg miðað við magn efnanna sem hún var gripin með. "Hún hefði mátt gera ráð fyrir tveimur til þremur árum, en nýtur þess að hafa aðstoðað lögreglu eftir megni," segir hann. Konan hafði samstarf við lögreglu um að afhenda efnin áfram, en það gekk ekki upp, en að auki vísaði hún á og nafngreindi alla söluaðila efnanna í Hollandi. Konan var að koma í sína þriðju ferð hingað til lands. "Segja má að dómurinn sendi skýr skilaboð um að fólk fái mildari dóm ef það upplýsir um málavexti og hjálpar lögreglu," sagði Sveinn Andri og tók fram að konan hafi hvorki vitað um magn eða tegund efnanna sem hún bar. Um það leyti sem konan var tekin var skotið á að andvirði kókaínsins gæti numið 15 til 30 milljónum króna. Bæði konan og ríkissaksóknari una dómnum sem Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×