Erlent

Lítill árangur í Ulsan

Fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Ulsan í Suður-Kóreu lauk í dag með litlum árangri. Hvorki gekk né rak að taka ákvarðanir eða marka nýja stefnu og er staðan því óbreytt. Hópur ríkja sem aðild á að Alþjóðahvalveiðiráðinu berst ötullega gegn því að leyfa hvalveiðar í atvinnuskyni á ný og þau ríki vilja reyndar flest ganga lengra í hina áttina og banna einnig allar vísindaveiðar. Hinn hagsmunahópurinn vill að ráðið fari hina leiðina og leyfi hvalveiðar í atvinnuskyni á ný og hafi umsjón með þeim enda sé þetta Alþjóðahvalveiðiráð, ekki hvalfriðunarráð. Niðurstaða fundarins í ár var engin. Hvorki verður dregið úr vísindaveiðum né verða veiðar í atvinnuskyni leyfðar. Nokkrar þjóðir hafa lagt til að haldnir verði minni ráðherrafundir þar sem málið verði rætt og jafnvel komi til greina að flétta samningum um hvalveiðar inn í aðra alþjóðasamninga. Japanar eru ekki yfir sig hrifnir af þessum tillögum og segja að þar sem hvalveiðar séu svo viðkvæmt málefni geti það skemmt aðrar samningaviðræður að blanda þeim saman við. Enginn virðist því ánægður eftir fundinn. Hvalfriðunarsinnar benda á að líklegt sé að um 2.500 hvalir verði veiddir löglega næsta árið, en það eru fleiri en nokkru sinni frá því að hvalveiðar voru bannaðar árið 1986. Hvalveiðiþjóðir eru ósáttar við að ekkert hafi gengið að semja um veiðar í atvinnuskyni. Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra mun á næstu dögum tilkynna fjölda hvala sem leyft verður að veiða við Íslandsstrendur í vísindaskyni. Næsti fundur Alþjóðahvalveiðiráðsins verður haldinn í St. Kitts og Nevis í Karíbahafinu en sú þjóð hefur skipað sér í raðir þeirra ríkja sem styðja hvalveiðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×