Sport

Uppbyggingin er að skila sér

Breiðablik er í sérflokki í 1. deild karla í fótbolta og er með fullt hús stiga að loknum fyrstu sex umferðunum. Þeir sem tengjast félaginu segja árangurinn liggja í uppbyggingarstarfsemi síðustu ára. Blikar hafa unnið alla sex leiki sína í sumar og flesta með afar sannfærandi hætti. Markatalan er heldur ekkert slor, liðið hefur skorað 13 mörk en fengið á sig aðeins tvö og virðist Bjarni Jóhannsson, hinn gamalreyndi þjálfari liðsins, hafa náð að búa til einstaklega heilsteypt lið. Auk þess er Breiðablik síðasta liðið til að vinna FH-inga, sem hafa haft sams konar yfirburði í Landsbankadeildinni það sem af er, en sá sigur vannst í 8-liða úrslitum deildarbikarsins í vor. Steini Þorvaldsson er núverandi formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks og hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 1999. Hann segir að ákveðið hafi verið að stokka upp hlutina þegar liðið féll úr efstu deild árið 2001 og að sú vinna sem tók þá við sé loksins að skila sér. „Við hófumst þá handa við að byggja liðið upp á strákum sem uppaldir voru hjá félaginu. Við réðum Bjarna sem þjálfara og það tekur alltaf tíma fyrir nýjan þjálfara að átta sig á liðinu. Það er núna sem árangur þessara vinnu er að skila sér,“ segir Steini. Liðið hjá Breiðabliki hefur tekið nokkrum breytingum frá því í fyrra en mesta breytingin er fólgin í því að gamlir jaxlar á borð við Sverri Sverrisson, Hreiðar Bjarnason, Hákon Sverrisson og Kristófer Sigurgeirsson eru horfnir á brott og hafa verið leystir af með ungum leikmönnum, flestum uppöldum hjá félaginu. Liðið fékk reyndar til sín tvo erlenda leikmenn sem flestir knattspyrnuáhugamenn ættu að þekkja, þá Hans Fróða Hansen, sem lék með Fram í fyrra, og Petr Podzemsky, sem lék með KR-ingum í fyrra. Auk þessa fékk liðið til sín Hjörvar Hafliðason til að standa á milli stanganna. Hjalti Kristjánsson, sem er aðeins 26 ára en samt sem áður leikreyndasti innlendi leikmaður Blika, segir þessa nýju menn hafa reynst mikinn feng fyrir liðið. „Þessir nýju menn hafa reynst okkur gríðarlega vel og styðja vel við bakið á öllum ungu strákunum,“ segir hann. Hjalti hefur leikið með Breiðablik allan sinn feril og gengið í gegnum súrt og sætt með meistaraflokknum á undanförnum árum. Hann segir liðið nú það sterkasta sem félagið hafi haft á að skipa í áraraðir. "Ég get ekki sagt að þetta hafi gengið betur en ég átti von á. Við vissum að við værum með hörkulið og það er mikil samheldni í hópnum. Það er nýr andi í liðinu núna eftir að það var yngt upp og þetta hefur allt smollið í ár,“ segir Hjalti og bætir við að stefnan sé að sjálfsögðu sett á úrvalsdeildarsæti. „Aðalmarkmiðið er að komast upp og ef við endum í 1. sæti þá er það bara bónus,“ segir Hjalti. Steini tekur í sama streng og segir Breiðablik vera komið til að vera. „Við vorum með mjög sigursælan 84’ árgang í yngri flokkunum sem er nú að blómstra með meistaraflokknum en svo er mikill efniviður í 90’ árgangnum núna sem hafa verið mjög sigursælir síðustu ár. Auk þess er liðið í dag eitt það yngsta í deildinni svo að það er óhætt að segja að framtíðin sé björt.“  Leikir Blika í sumar:1. umf. Breiðablik–Haukar 2–1 Hjalti Kristjánsson, Gunnar Örn Jónsson 2. umf. Völsungur–Breiðablik 0–1 Kristján Óli Sigurðsson 3. umf. Breiðablik–Fjölnir 1–0 Ellert Hreinsson 4. umf. Þór Ak.–Breiðablik 1–3 Olgeir Sigurgeirsson 2 (bæði úr víti), sjálfsmark. 5. umf. Breiðablik–Víkingur Ó. 3–0 Olgeir Sigurgeirsson, víti, Ellert Hreinsson, Ragnar Gunnarsson 6. umf. KS–Breiðablik 0–3 Ragnar Gunnarsson 2, Olgeir Sigurgeirsson, víti. Árangur Blika síðustu ár2000 Úrvalsdeild 7.sæti 18 stig (5 sigrar) 2001 Úrvalsdeild 10. sæti 14 stig (4) 2002 1. deild 7. sæti 23 stig (7) 2003 1. deild 7. sæti 21 stig (6) 2004 1. deild 4. sæti 26 stig (7) 2005* 1.deild 1. sæti 18 stig (6)  *Þriðjungi móts lokið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×