Innlent

Róleg nótt í borginni

Rólegt var hjá lögreglunni í Reykjavík í nótt og segjast menn þar á bæ vera stoltir af því að aðeins 92 bókanir hafi verið gerðar. Nóttin gekk þó ekki alveg stórslysalaust fyrir sig en fjórar minniháttar líkamsárásir voru gerðar í miðbænum og voru fjórir stöðvaðir fyrir ölvunarakstur. Fimm manns fengu að gista fangageymslur lögreglunnar en miðað við allan þann fjölda sem þar var saman kominn þykir kvöldið og nóttin hafa tekist vel en alls voru 50 þúsund manns í miðbænum þegar mest var. Öllu meira var að gera hjá lögreglunni á Akureyri í gærkvöld og nótt. Átta grömm af amfetamíni fundust í bíl um þrjú leytið í nótt við reglulegt „tékk“ og var eigandinn handtekinn. Þá voru þrír stöðvaðir fyrir ölvunarakstur og var einn þeirra réttindalaus. Óhætt er að segja að erilsamt hafi verið hjá lögreglunni á Akureyri í nótt og er fangelsið í bænum nú fullskipað. Um hálffimm leytið brutust út hópslagsmál á Ráðhústorginu þar í bæ og fengu sex að gista í fangageymslum lögreglunnar en svo margar eru einmitt fangageymslurnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×