Innlent

Frekari aðgerðir gegn handrukkurum

Ekki liggur fyrir hvort einhverjir þeirra þrjátíu sem grunaðir eru um handrukkun eða tengsl við handrukkara verði ákærðir. Talið er að hópurinn sem ná þarf til sé mun stærri og eru frekari aðgerðir í undirbúningi. Lögreglan í Reykjavík fór í sérstakt átak síðustu helgi í samvinnu við Ríkislögreglustjóra og á einni nóttu voru 30 manns teknir höndum og færðir til yfirheyrslu grunaðir um að hafa staðið að eða þekkja til svokallaðrar handrukkunar í tengslum við fíkniefnamál. Töluvert af fíkniefnum var haldlagt sem og barefli. Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir ekki ljóst á þessari stundu hvort einhver þeirra þrjátíu sem teknir voru verði ákærðir fyrir aðild að slíkum málum. Hann vildi ekki greina frá því hvort einhverjir þeirra sem handteknir voru hefði játað slík brot á sig. Hann segir að hópurinn sem grunaður er um að beita ofbeldi við innheimtu skulda í fíkniefnamálum sé stærri en tekinn var um síðustu helgi og að farið verði í frekari aðgerðir af þessum toga, en vildi ekki greina frekar frá þeim áætlunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×