Innlent

Misnotaði þriggja ára stúlku

Reykvískur karlmaður á fertugsaldri sætir nú rannsókn vegna gruns um kynferðisleg brot á fjórum stúlkubörnum. Stúlkurnar voru á aldrinum þriggja til þrettán ára þegar brotin voru framin. Við rannsókn á heimili mannsins fundust tugir barnaklámmynda í tölvu hans. Að sögn Sigurbjörns Víðis Eggertssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns í Reykjavík er rannsóknin langt komin. Nokkur ár eru liðin frá því að talið er að fyrsta brotið var framið, en meint misnotkun er talin hafa átt sér stað um árabil. Fyrsta kæran barst lögreglu í mars, en þrjár kærur hafa borist síðan. Maðurinn er ásakaður um að hafa snert stúlkurnar, eða látið þær snerta sig á ósæmilegan hátt. Refsiramminn fyrir slík brot er allt að tólf ára fangelsi. Ramminn er hins vegar sjaldan nýttur til fullnustu. Málið tengist ekki rannsókn lögreglu á manni á fertugsaldri sem handtekinn var í gær vegna gruns um að tölvubúnaður hans innhéldi barnaklám.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×