Innlent

Vitað um athæfi mannsins um hríð

Íslendingur um þrítugt var handtekinn í dag í tengslum við alþjóðlega herferð gegn barnaklámi. Vitað hefur verið um athæfi hans um hríð en beðið var með handtökuna til að reyna að ná fleirum. Ráðist var inn samtímis á hundrað og fimmtíu stöðum í þrettán löndum í morgun í leit að barnaklámi. Þetta er stærsta samhæfða aðgerð evrópskra lögregluyfirvalda af þessu tagi og markar í raun upphaf rannsóknar á miklu magni af hörðum diskum, myndböndum og fleiru þar sem grunur leikur á að finna megi barnaklám. Aðgerðin, sem nefndist „Icebreaker“, náði einnig hingað til lands. Hald var lagt á fjórar tölvur á heimili mannsins. Hann er rúmlega þrítugur en engar vísbendingar eru á þessu stigi málsins um að fleiri Íslendingar tengist málinu. Málið á uppruna sinn á Ítalíu og þegar í ljós kom hið mikla umfang voru aðgerðir lögreglunnar í þrettán löndum sem tengdust málinu samræmdar. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur er handtekinn í tengslum við stóra, alþjóðlega rannsókn af þessu tagi en áður hefur Íslendingur verið handtekinn í kjölfar upplýsinga frá finnsku lögreglunni. Að jafnaði hefur einn verið handtekinn á ári undanfarið vegna barnakláms en hvort að það gefur raunhæfa mynd af magni barnakláms í umferð hér á landi veit enginn, þar sem erfitt er að hafa upp á öfuguggum sem njóta nafnleyndar á Netinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×