Innlent

Síminn hættur sekúndumælingum

Póst- og fjarskiptastofnun vakti í gær athygli á breytingum sem Síminn hefur gert á tímamælingu símtala. Annan júní hætti fyrirtækið að innheimta gjöld samkvæmt sekúndumælingu í einstaklingsáskriftum farsíma. Nú er gjaldfært fyrir fyrstu mínútu hvers símtals innan kerfis Símans og svo fyrir hverjar 10 sekúndur eftir það. Ef hringt er út fyrir GSM kerfi Símans eru fyrstu 20 sekúndurnar gjaldfærðar og síðan hverjar 10 sekúndur. "Samkvæmt upplýsingum frá Símanum mun þessi breyting á gjaldtöku leiða til þess að gjöld farsímanotenda með einstaklingsáskrift, sem ekki nýta sér sparnaðarleiðir, hækka að meðaltali um 2.880 kr. á ári," segir stofnunin og taldi ólíklegt að neytendur hefðu orðið varir við tilkynningu um breytinguna á vef Símans. Í tilkynningu Síman segir að nýjar sparnaðarleiðir og tilboð sem kynnt hafi verið nýverið feli í sér fleiri kosti fyrir viðskiptavini og geti sparað þeim peninga. "Sparnaður þeirra viðskiptavina Símans sem munu nýta sér nýjar sparnaðarleiðir mun geta numið allt að 11.820 kr. að jafnaði á ári," segir þar og áréttað að viðskiptavinir geti kosið að vera áfram í sekúndumælingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×