Innlent

Snuprar Ríkislögreglustjóra

MYND/Róbert
Umboðsmaður Alþingis gerir athugasemdir við vinnubrögð Ríkislögreglustjórans í tveimur aðskildum málum. Umboðsmaður telur að kröfum stjórnsýslulaga hafi ekki verið fullnægt.   Bæði málin snúast um setningu í lögreglustarf hjá lögreglunni í Reykjavík. Í öðru tilvikinu taldi sá sem kvartaði að hann hefði staðið öðrum umsækjendum framar hvað varðar menntun og starfsreynslu. Neikvæð afstaða yfirmanna lögreglunnar í Reykjavík í hans garð hafi byggst á mati þeirra á framgöngu hans í starfi þar áður og hann hafi ekki notið andmælaréttar. Í niðurstöðu umboðsmanns segir að viðkomandi hafi ekki á neinu stigi fengið að tjá sig um þær upplýsingar og taldi umboðsmaður að meðferð málsins í heild hefði ekki samrýmst þeirri kröfu sem felst í andmælareglu stjórnsýslulaganna. Hann taldi að ríkislögreglustjórinn hefði ekki gengið nægilega úr skugga um að málið væri upplýst með viðhlítandi hætti. Þessir annmarkar ættu þó ekki að leiða til ógildingar ákvörðunar en beindi þeim tilmælum til ríkislögreglustjórans að taka framvegis mið af þessu. Í hinu málinu segir í greinargerð lögreglunnnar að viðkomandi hafi ekki komið vel fyrir í starfsviðtali og taldi umboðsmaður að það hafði haft veruleg áhif á mat ríkislögreglustjórans á starfshæfni umsækjandans. Umboðsmaður gerir athugasemdir við að ríkislögreglustjóri hafi ekki óskað eftir nánari upplýsingum um hvað það var við framkomu viðkomandi sem ábótavant þótti. Umboðsmaður Alþingis telur að ríkislögreglustjórinn hefði átt að afla sér frekari gagna um þetta og að þessi vinnubrögð hafi ekki fullnægt kröfum um rannsóknarreglu samkvæmt stjórnsýslulögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×