Innlent

Tíma sóað fyrir þrjósku og hroka

"Þetta sýnir að almenningur hefur möguleika á að hafa áhrif og stjórnvöld mega ekki hunsa lög og reglur," sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um nýfallinn dóm Hæstaréttar varðandi umhverfismat álverksmiðju Alcoa. "Ég tel fyrst og fremst ámælisvert að bæði framkvæmdaaðili og eftir atvikum ráðuneyti skuli ekki hafa látið sér héraðsdóm nægja og farið á fullt með nýtt umhverfismat. Ég sé ekki betur en dýrmætum tíma hafi verið sóað í þrjósku og hroka með því að knýja málið upp í Hæstarétt til þess eins að tapa þar," sagði hann og taldi ljóst frá byrjun að ákaflega hæpin aðferðafræði væri að nota umhverfismat annarrar framkvæmdar sem byggði á allt annarri tækni. "Mér finnst umhugsunarefni hvernig yfirvöld taka þessum dómi og láta eins og ekkert sé. Ég skil ekki hvernig hægt er að halda áfram við framkvæmd sem ekki hefur farið í gegn um umhverfismat, en nú er ljóst að ekkert slíkt er til fyrir þessa verksmiðju Alcoa," sagði hann og kvað augljóst að vinna þyrfti nýtt umhverfismat, sem jafnvel gæti leitt til breytinga á hönnun verksmiðjunnar. "Sérstaklega mengunarvarnaþættinum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×