Innlent

Ráðuneytið gekk of langt

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í gær úr gildi úrskurð dómsmálaráðuneytisins þess efnis að Lilju Sæmundsdóttur væri óheimilt að ættleiða barn frá Kína. Ráðuneytið studdist í úrskurði sínum við að Lilja gæti átt á hættu heilsubrest vegna offitu. Þá voru henni dæmdar 600.000 krónur í málskostnað. "Að því marki sem heilsufar hennar hefur verið metið verður að telja að það sé gott, en hvergi kemur fram í gögnum málsins að offita ógni heilsu hennar eða muni gera það næstu 20 árin," segir í dómnum og ráðuneytið er sagt hafa gengið allt of langt í ályktunum um hugsanlegan heilsubrest Lilju. "Maður er nú varla búinn að fatta þetta," sagði Lilja í gær, en kvaðst "ofboðslega glöð" yfir að fallist hafi verið á að ráðuneytið hafi ekki farið fram með eðlilegum hætti í máli hennar. Hún sagðist ætla að hugleiða næstu skref í góðu tómi með lögfræðingi sínum. Dómurinn féllst ekki á þá kröfu Lilju að að viðurkennt væri að hún uppfyllti skilyrði til að ættleiða. "Mat á því hvort stefnandi uppfylli þessi skilyrði, sem hefði þýðingu fyrir hana að lögum, heyrir undir dómsmálaráðuneytið sem tekur afstöðu til þess samkvæmt lögum um ættleiðingar og öðrum reglum," segir í dómnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×