Innlent

Dæmdar bætur vegna vinnuslyss

Ísfélag Vestmannaeyja var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmt til að greiða manni rúmlega eina milljón króna í skaðabætur. Maðurinn varð fyrir slysi í febrúar í fyrra þegar hann var að vinna við svokallaða brettastöflunarvél sem er hluti af pökkunarvél í hraðfrystihúsi Ísfélagsins. Vélin bilaði með þeim afleiðingum að dragplata gekk út og dró með sér öskjur sem duttu yfir manninn þar sem hann stóð. Hann féll við það á bakið á járnstoðir fyrir aftan hann og var í kjölfarið frá störfum um tíma vegna meiðsla. Maðurinn krafðist rúmlega einnar milljónar í skaðabætur fyrir dómi en Ísfélagið krafðist sýknu. Héraðsdómur taldi að óvarkárni sem maðurinn sýndi í umrætt sinn væri smávægileg með hliðsjón af bilun í vélinni sem og skorti á markvissri stjórn og leiðbeiningum til starfsmanna af hálfu yfirmanna Ísfélagsins. Þóttu því ekki efni til að skipta sök í málinu og var fallist á kröfu mannsins að Ísfélagið bæri að fullu ábyrgð á tjóninu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×