Innlent

Ólafur sakaður um málþóf

Ólafur F. Magnússon lagði í fyrradag til á borgarstjórnarfundi að heimildir til niðurrifs sjö gamalla húsa yrðu dregnar til baka. Húsin eru milli Smiðjustígs og Vatnsstígs og fimm þeirra eru frá 19. öld. Var tillögunni vísað til skipulagsráðs og lýsti Ólafur sérstaklega furðu sinni á að vinstri grænir skyldu stuðla að þeirri niðurstöðu. Ólafur bar upp áþekka tillögu á borgarstjórnarfundi þann 17. maí, þá um fjögur hús milli Smiðjustígs og Vatnsstígs. Stefán Jón Hafstein, starfandi forseti borgarstjórnar, gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Ólafs í málinu. "Þetta jaðrar við málþóf," segir Stefán. "Þetta er á mjög gráu svæði þó fundarsköp banni þetta ekki. Það gengur ekki upp að koma með nokkur húsnúmer inn á hvern einasta borgarstjórnarfund þegar borgarstjórnin er búin að ræða um málið í heild." Ólafur hafnar því alfarið að þetta sé málþóf. "Mér finnst forkastanlegt að verið sé bregða fæti fyrir þessa umræðu. Þetta er ekkert annað en tilraun til að kæfa málið." Ólafur kveðst nota þessa aðferð til fá fram umræðu um hvert hús í borgarstjórn. "Ekki veitir af, vegna lítillar þekkingar og áhugaleysis sumra borgarfulltrúa á elstu byggðinni."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×