Innlent

Rockville brennur

Mikill eldur var í Rockville, gömlu ratsjárstöðinni á Miðnesheiði, í nótt. Samkvæmt Víkurfréttum var fjölmennt slökkvilið sent á staðinn á þriðja tímanum í nótt og logaði þá mikill eldur í byggingu hjá kúluturnunum sem eru eitt helsta kennileiti staðarins. Engin starfsemi hefur verið á staðnum frá því að Byrgið var þar með aðstöðu. Ekkert rafmagn er á staðnum en samkvæmt Víkurfréttum leikur grunur á íkveikju. Blaðamenn Víkurfrétta voru stöðvaðir af herlögreglumönnum og ekki hleypt að brunavettvangi í nótt. Þeir vildu einnig banna ljósmyndurum að ganga um móann utan girðingar gömlu ratsjárstöðvarinnar þannig að hægt væri að ná myndum af slökkvistarfi. Það var ekki fyrr en blaðamenn settu sig í samband við lögregluna í Keflavík að herlögreglunni var ljóst að ljósmyndurum væri heimilt að ganga um móann. Ljósmyndurum var þó meinaður aðgangur að sjálfum brunavettvangi.
Víkurfréttir/Hilmar B.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×