Innlent

Reyndi að flýja úr umsjón lögreglu

Maður frá Singapúr var í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að smygla fólki á milli landa. Einn þeirra sem með honum voru í för reyndi að flýja úr umsjón lögreglu með því að stökkva út um glugga af annarri hæð. Fjögur ungmenni, þrjár stúlkur og einn maður, sem voru með manninum í för eru á aldrinum 19 til 24 ára og eru öll kínverskir ríkisborgarar. Þó maðurinn sé grunaður um mansal var hann einungis ákærður og dæmdur fyrir að aðstoða fólk við að komast ólöglega á milli landa. Aðspurður hvers vegna maðurinn var ekki ákærður fyrir mansal fyrst málið ber þess merki að vera angi af skipulagðri glæpastarfsemi segir Eyjólfur Kristjánsson, fulltrúi sýslumanns, að fólkið virðist vera fórnarlömb í málinu og því sé það ekki ákært. Refsing mannsins er í samræmi við dómafordæmi. Þó hefur fylgdarfólkið í fyrri málum verið ákært og dæmt til refsingar ýmist fyrir skjalafals eða skjalamisnotkun en nú virðist hafa orðið breyting á. Að sögn Eyjólfs hefur átt sér stað mikil þróun í þessum málaflokki og alþjóðasamfélagið og ríkisstjórnir um heim allan hafi verið að bregðast við þessum alvarlega brotaflokki. Eyjólfur segir að með aukinni reynslu og þróun sé tekið öðruvísi á þessum málum.  Nýverið skrifaði Ísland undir sáttmála Evrópuráðsins um að vernda fórnarlömb mansals og smygls. Um tíma var talið að stúlkurnar þrjár væru 15 til 17 ára gamlar og málið því talið mun alvarlegra ef rétt væri að fórnarlömbin væru börn. Spurður hvað olli þessum misskilningi segir Eyjólfur að þetta sé hluti af ferlinu; fólkinu sé uppálagt að skýra frá með ákveðnum hætti og það hafi gert það í þessu tilviki. Kínverjarnir hafa dvalið á gistiheimili í Reykjnesbæ en þau hafa verið í óvissu um örlög sín og ekki skilið að líklega hafi þeim verið fyrir bestu að för þeirra yrði stöðvuð hér. Í síðustu viku stökk ungi maðurinn út um glugga af annari hæð niður á hellulagða stétt til að flýja. Hann lá vankaður á stéttinni um stund en hljóp af stað þegar lögregluna bar að. Hann náðist svo á hlaupum. Kínverjarnir hafa fengið dvalarleyfi hér á landi til bráðabirgða á meðan unnið er að málum þeirra í stjórnsýslunni. Tvö þeirra hafa lýst yfir vilja til að komast aftur til síns heima.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×