Innlent

Segir hugmyndir ekki stolnar

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, vísar ummælum Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra um að sjálfstæðismenn hafi stolið hugmyndum um uppbyggingu á Örfirisey algjörlega á bug. Steinunn Valdís sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að hugmyndirnar hefðu verið kynntar sem trúnaðarmál í hafnarstjórn á sínum tíma og greinilegt væri að sjálfstæðismenn gerðu þær að sinni tillögu nú. Því fagnaði hún. Vilhjálmur segir sjálfstæðismenn hafa unnið lengi að tillögunum varðandi Örfirisey. Hann segir fullyrðingar borgarstjóra fráleitar vegna þess að tillögur sjálfstæðismanna hafi verið í vinnslu í eitt ár og þrjá mánuði og hafi verið tilbúnar fyrir um einum og hálfum mánuði. Þær hugmyndir sem kynntar hafi verið í hafnarstjórn sem trúnaðarmál gangi í meginatriðum út á það að nýta hluta af því húsnæði, sem nú sé illa nýtt úti á Örfirisey, undir íbúðarhúsnæði með eilítilli viðbót þannig að hann vísi fullyrðingum Steinunnar Valdísar út á hafsauga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×