Innlent

Júlíus Vífill stefnir líka hátt

Gísli Marteinn Baldursson sjónvarpsmaður segir kominn tíma á kynslóðaskipti í hugmyndum sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Hann ætlar að bjóða sig fram í prófkjöri flokksins í borginni og segist sækjast eftir sæti ofarlega á lista. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borginni, sem hefur sóst eftir að leiða lista sjálfstæðismanna, sagði í samtali við Bylgjuna að hann vildi ekki tjá sig um ummæli Gísla Marteins að öðru leyti en því að hann legði áherslu á að það yrði opið lýðræðislegt prófkjör og hann myndi sækjast eftir að leiða lista sjálfstæðismanna. Hann kvaðst hins vegar vera andvígur sérstöku leiðtogaprófkjöri eða beinni uppstillingu kjörnefndar. Gísli Marteinn segir í viðtalinu, þegar hann er spurður hvort hann telji kominn tíma til að skipta um forystu sjálfstæðismanna í borginni, að þau réttmætu rök að R-listinn kunni ekki að fara með fjármuni dugi ekki ein og sér. Fólkið vilji framtíðarsýn og hana þurfi sjálfstæðismenn að leggja betur fram. Vilhjálmur segist sammála Gísla Marteini; eitt af hans fyrstu verkum þegar hann hafi tekið við af Birni Bjarnasyni hafi verið að skipa sérstakan hóp til að fjalla um framtíðarsýn sjálfstæðismanna í borginni. Niðurstaða hans verði kynnt í næstu viku. Slík vinna sé því þegar hafin. Þröng umræða um fjármál og óstjórn R-listans hafi ekki skilað flokknum nægilega vel fram á við. Gísli Marteinn er ekki einn um að daðra við forystuhlutverk í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna. Júlíus Vífiill Ingvarsson segist vera að kanna bakland sitt í Sjálfstæðisflokknum. Hann ætlar að ákveða á komandi dögum hvort hann taki slaginn í prófkjöri og taki þá stefnu á eitt af efstu sætunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×