Innlent

Hefndaraðgerðir stjórnvalda

Stjórnarandstaðan kallar frumvarp til samkeppnislaga hefndaraðgerðir og varar við því að það verði samþykkt sem lög frá Alþingi. Í áliti minnihluta efnahags- og viðskiptanefndar segir að það veiki samkeppniseftirlit á Íslandi og að helstu sérfræðingar þjóðarinnar á þessu sviði vari við því. Samkeppnismálin voru til umræðu á Alþingi í allan dag eftir að formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafði mælt fyrir áliti nefndarinnar á breytingu á samkeppnislögum. Lengstu ræðurnar voru hátt á þriðju klukkustund. Minnihluti efnahags- og viðskiptanefndar segir sjálfstæði samkeppnisyfirvalda skert, lögin verði veikari en áður og hvergi sé að finna ákvæði í nýju lögunum sem geri eftirlitsaðilum kleift að takast á við hringamyndun og fákeppni. Hins vegar sé sett pólitísk stjórn yfir Samkeppniseftirlitið og dregið úr kröfum um hæfi og hlutleysi þeirra sem skipa stjórn eftirlitsins. Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingar, spurði hvaða skilaboð þetta séu til annarra stofnana í samfélaginu sem þrammi ekki í takt með stjórnvöldum. Hann nefndi Þjóðhagsstofnun, Mannréttindaskrifstofuna og nú væri komið að því að leggja niður Samkeppnisstofnun. Stjórnarliðar voru ítrekað spurðir af hverju væri ráðist í slíkar breytingar. Pétur Blöndal, formaður nefndarinnar, sagði því svarað í greinargerð með frumvarpinu og nefndaráliti. Það verið væri að einfalda kerfið; það væri flókið og seinvirkt og nefndi málefni tryggingafélaganna sem dæmi sem hefðu verið í gangi í átta ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×