Erlent

Stefnir í söguleg úrslit

Það stefnir allt í söguleg úrslit í kosningunum í Bretlandi þar sem kjörstöðum verður lokað eftir nokkrar stundir. Þau eru söguleg að því leyti að Tony Blair er á góðri leið með að verða fyrsti leiðtogi Verkamannaflokksins til að sitja þrjú kjörtímabil í röð. Það hefur orðið sáralítil breyting á niðurstöðum kannana, Verkamannaflokkurinn hefur um níu prósentustiga forskot. Ef það er reiknað út hvernig það kæmi út í skiptingu þingsæta yrði niðurstaðan nokkurn veginn á þá leið, samkvæmt BBC, að Verkamannaflokkurinn fengi 401 sæti en missti 2, Íhaldsflokkurinn fengi 158 sæti og missti 7 sæti, Frjálslyndir demókratar fengju 62 sæti og bættu við sig ellefu og aðrir fengju 25 sæti, tveimur sætum færra en í síðustu kosningum. Enginn vafi er á því að Verkamannaflokkurinn vinnur þetta og í Bretlandi ganga allir út frá því sem gefnu, öll blöðin í dag lýsa Blair sem sigurvegara og það löngu áður en kjörstöðum er lokað og Bretar almennt eru ekkert sérstaklega áhugasamir. Fréttaskýrendur segja hins vegar að það verði spennandi að fylgjast með í kvöld því spennan liggur í því hversu mörg þingsæti Verkamannaflokkurinn fær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×