Erlent

Íhaldsflokkurinn í tilvistarkreppu

Fylgiskannanir í Bretlandi í dag benda til þess að breski Íhaldsflokkurinn bíði afhroð í kosningunum á morgun. Flokkurinn er týndur í tilvistarkreppu og leiðtogadagar Michaels Howards virðast taldir. Ekkert virðist ganga Howard í haginn. Það er alveg sama þótt Bretar treysti ekki Blair og vilji gjarnan sjá einhvern annan mann stjórna landinu, Howard er ekki sá maður. Íhaldsflokkurinn tapar fylgi jafnt og þétt og mælist nú með allt niður í 27 prósenta fylgi sem er aðeins fjórum prósentum meira en Frjálslyndir demókratar. Verkamannaflokkurinn siglir hins vegar sinn sigursjó með allt upp í 41 prósent fylgi. Talið er að ágeng og hörð kosningabarátta Howards hafi komið í bakið á honum. Flest bendir til þess að hann hafi valdið sjálfum sér og flokknum þó nokkru tjóni með því að kalla Tony Blair lygara vegna Íraksmálsins. Margir benda á að Íhaldsflokkurinn hafi stutt innrásina í Írak og Howard hefur viðurkennt að hann hefði verið fylgjandi innrás jafnvel þó hann hefði vitað að engin gereyðingavopn væru í landinu. Þá hefur flokkurinn heldur ekki bætt við sig atkvæðum út á harða innflytjendastefnu sína sem er aðalkosningamál þeirra. Kosningabarátta Íhaldsflokksins var hönnuð af frægum spunameistara frá Ástralíu, Lynton Crosby, sem á stóran þátt í góðu gengi hægri flokksins þar og endurkjöri Johns Howards sem forsætisráðherra. Þessi stefna hefur þó ekki hentað í Bretlandi og nær ekki að auka vinsældir hins breska Howards. Margir innanbúðarmenn í Íhaldsflokknum eru verulega óánægðir með kosningabaráttuna, telja hana hafa verið illa ígrundaða, vilja senda spunameistarann beint heim til Ástralíu og skipta um kallinn í brúnni. Enn ein leiðtogakreppan blasir því við Íhaldsflokknum að afloknum kosningum þegar leitað verður að nýjum leiðtoga sem gæti tekist það sem William Hague, Iain Duncan Smith og Michael Howard hefur ekki tekist, það er að sigra teflonmanninn Tony Blair.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×