Erlent

Thatcher umbylti bresku samfélagi

Sá stjórnmálamaður sem á hvað mestan þátt í því hvernig breskt samfélag lítur út núna er ekki einu sinni í framboði. Hann heitir Margaret Thatcher. Bretland samtímans er nútímalegt markaðssamfélag án hafta og afturhaldssemi. En 1974 var því öðruvísi farið: Edward Heath, þáverandi leiðtogi íhaldsmanna, var andsnúinn kapítalisma og meðal pólitískra fyrirmynda hans voru Josef Tito, Fidel Castro og Mao Zedong. Fimm árum síðar var járnfrúin Margaret Thatcher komin á kreik, leiddi Íhaldsflokkinn til sigurs í kosningum og leiddi byltingu á bresku samfélagi. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir Thatcher í rauninni bæði hafa breytt Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum. Sá fyrrnefndi hafi verið yfirstéttarflokkur og mjög gamaldags, eins og reyndar Bretland allt, sem stóð í vegi fyrir tækniframförum og alls kyns umbótum. Ólafur segir Thatcher ekki hafa passað mjög vel inn í hóp gömlu yfirstéttarkallanna og lagt megináherslu á markaðinn, nútímalegt samfélag og samkeppni. En nú láta forystumenn Íhaldsflokksins sem Thatcher sé ekki til á meðan Blair, Brown og félagar ræða um efnahagsstefnu hennar eins og hálfgert nýja testamenti. Af hverju? Ólafur segir Verkamannaflokkinn hafa færst nær miðjunni og í rauninni ekki vera neitt fjarri því sem Thatcher var að gera. Báðir flokkarnir hafa því færst til hægri og því er Íhaldsflokkurinn í augum margra jafnógirnilegur kostur og Verkamannaflokkurinn var á níunda áratugnum. Nú er járnfrúin mörgum kjósendum gleymd og í fyrsta sinn í hálfa öld tekur hún ekki þátt í kosningabaráttunni, enda bæði fullorðin og sögð ósátt við flokkinn. Ólafur segir að arfleifð hennar verði sú að hún hafi verið leiðtoginn sem breytti Bretlandi frá gamla tímanum til nýja tímans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×