Sport

Beckham í bakvörðinn

Knattspyrnumaðurinn David Beckham hjá Real Madrid mun leysa nýja stöðu þegar lið hans mætir Real Sociedad í spænska boltanum um helgina. Wanderley Luxemburgo, knattspyrnustjóri Madridarliðsins, hefur aldrei verið hræddur við að gera breytingar á liði sínu og setja menn í aðrar stöður en þeir eru vanir og nú hefur hann ákveðið að setja Beckham í stöðu hægri bakvarðar í stað Michel Salgado, sem er meiddur. "Ég lék stöðu hægri bakvarðar tvisvar sinnum þegar ég var hjá Manchester United og það heppnaðist ágætlega," sagði Beckham. Zinedine Zidane er einnig að leika út úr stöðu hjá liðinu um þessar mundir og í stað þess að leika stöðu leikstjórnanda á miðjunni, sem hann gerir manna best í heiminum, hefur Luxemburgo nú plantað Frakkanum út á vinstri kantinn. "Ég skil ekki hvað maðurinn er að gera með mig úti á væng. Ég hef ekki hraðann sem ég hafði þegar ég tvítugur og er allt of seinn í að leika þar. Ég er ekkert unglamb lengur. Auk þess eru kraftar mínir mun betur nýttir á miðjunni þar sem ég hef alltaf verið," sagði Zidane.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×