Innlent

Fundu upp nýstárlega barnagælu

Nú geta foreldrar látið barnið sitt sofa úti í vagni og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því þótt það vakni því barnagælan sér um að vagga því í svefn aftur. Dugi það ekki til sendir barnagælan SMS-skilaboð til foreldranna. Barnagælan er prófverkefni þriggja verkfræðinema við Háskóla Íslands, þeirra Fjólu Jóhannesdóttur, Arngríms Einarssonar og Glenns Setterströms. Þau kynntu verkefnið fyrir félögum sínum í gær en þetta er tiltölulega fyrirferðalítill búnaður. Arngrímur og Fjóla segja að barnagælan ruggi vagni barnsins ef það fari að gráta og hætti að rugga því ef það hætti að gráta. Fjóla segir að öllu sé stýrt með tölvu en að barnagráturinn sé tekinn upp með hljóðnema í vagninum. Það er bara grátur sem setur tækið af stað en ekki til dæmis hljóðkútslaus bíll sem ekur fram hjá. En hvað ef barnið er óhuggandi? Fjóla segir að þá fái foreldrarnir SMS-skilaboð um að barnið vilji láta líta á sig. Notandinn skilgreini hversu langan tíma hann vilji að barnið gráti áður en SMS-skeytið er sent. Þrátt fyrir að tækið virðist einfalt er mikil vinna á bak við það. Barnagælan hefur ekki enn verið reynd á raunverulegu barni. Hönnuðirnir segja hugmyndina ekki hafa kviknað vegna andvökunátta við barnsgrát eða gráts sem truflaði próflestur. Þau segjast í upphafi hafa verið í vandræðum með að finna verkefni en þeim hafi dottið þetta í hug ásamt einum kennaranum. Þau hafi útfært verkefnið á sinn hátt og fundið að þeirra mati einfalda og þægilega lausn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×