Erlent

Tilgangslaust að hitta Kínaforseta

Forsætisráðherra Japans segir tilgangslaust að hitta forseta Kína ef það verði aðeins til þess að þeir skattyrðist. Bæði löndin krefjast þess að hitt biðjist afsökunar. Heimsókn utanríkisráðherra Japans til Kína, sem nú stendur yfir, hefur ekki verið neinn dans á rósum. Kínverjar krefjast þess að Japanar biðjist afsökunar á kennslubók sem þeir segja að falsi söguna um grimmdarverk japanskra hermanna meðan Kína var hernumið. Japanar krefjast þess hins vegar að Kínverjar biðjist afsökunar á herskáum mótmælum gegn Japan þar sem japanska sendiráðið í Peking var grýtt. Aðstoðarutanríkisráðherra Kína segir að samskipti landanna hafi ekki verið jafn stirð í þrjá áratugi. Bæði forsætisráðherra Japans og forseti Kína munu sitja ráðstefnu Asíuríkja í Jakarta í Indónesíu um næstu helgi. Forsætisráðherra Japans, Junichiro Koizumi, hefur efasemdir um að þeir muni ræða þar tvíhliða málefni landanna. Hann segir að ef hann hitti Hu, forseta Kína, voni hann að ekki verði um harkaleg orðaskipti að ræða. „Við ættum að horfa til framtíðar og ræða um aukin vináttutengsl landanna,“ segir Koizumi. Viðskiptatengsl landanna eru svo náin og sterk að litlar líkur eru til þess að til átaka komi milli þeirra. Engu að síður hafa menn af því talsverðar áhyggjur að deilur þessara efnahagsrisa í Asíu valdi þar óstöðugleika.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×