Innlent

Ísland verið fremst í fjarskiptum

Ísland kemst í fremstu röð í heiminum í upplýsingatækni og fjarskiptum með fimm ára fjarskiptaáætlun sem hefst í ár. Með henni á að bæta sjónvarps- og útvarpssendingar til dreifðra byggða og sjómanna auk þess sem farsímakerfið verður eflt og háhraðatengingu komið upp um allt land. Samgönguráðherra segir þetta gert í tengslum við söluna á Símanum og að með þessu sé fjarskiptafyrirtækjunum skapaður betri starfsgrundvöllur. Áætlunin gildir fyrir árin 2005 til 2010 og myndar heildstæða stefnu í fjarskiptamálum. Hún nær yfir öll fjarskipti, það er síma, tölvu, útvarp og sjónvarp. Samkvæmt henni á að vera búið að háhraðavæða heimili, stofnanir og fyrirtæki landsins fyrir árið 2007. Þá á að bæta öryggi vegfarenda með betri farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins og helstu ferðamannastöðum og á á þessu ári að bjóða upp á stafrænt sjónvarp um háhraðanet og stafrænt útvarp um gervihnött um allt land og miðin. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir að Ísland verði í þessum efnum í fremstu röð þeirra ríkja sem hafi lagt áherslu á uppbyggingu fjarskipta. Fyrir Íslendinga, sem búi á eyju, skipti það miklu máli að hafa bæði öryggi og mikinn hraða á öllum tengingum og að þeim sé dreift um landið allt. Í tengslum við sölu Símans verða 900 milljónir króna settar í uppbyggingu farsímakerfis og fjarskiptasjóður verður settur á laggirnar, en hann mun veita styrki til uppbyggingar fjarskiptakerfa. Samgönguráðherra segir þessa áætlun lagða fram í tengslum við sölu Símans. Lagt hafi verið á það áherslu, m.a vegna umræðu um sölu á grunnnetinu, að ætlunin sé að byggja upp fjarskiptakerfið í þágu allra landsmanna. Samgönguráðherra segir að með þessari áætlun sé fjarskiptafyrirtækjunum skapaður betri starfsgrundvöllur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×