Menning

Listræn mannrækt á Suðurnesjum

"Það er engin vigt í húsinu og ekkert málband þannig að þetta er ekki venjuleg líkamsræktarstöð heldur fáum við hingað fólk sem er að leita að einhverju fyrir sinn innri mann, svona líkamsrækt fyrir sálina," segir Marta brosandi þegar hún er spurð út í starfsemina. Marta opnaði Púlsinn fyrir tveimur árum ásamt eiginmanni sínum, Friðriki Þór Friðrikssyni. Þau höfðu keypt gamla kaupfélagshúsið sem búið var að standa autt um tíma og tóku það ærlega í gegn. Nú blasa þar við hlýlegir salir og stofur fyrir ýmsar æfingar og Marta segir jógasalinn vekja sérstaka lukku. "Við höfum verið með kennara úr Reykjavík sem lögðu það á sig að keyra hingað því þeim fannst aðstaðan svo góð," segir Marta, sem getur þess líka að það séu ekki aðeins Suðurnesjamenn sem sæki Púlsinn heldur komi fólk af höfuðborgarsvæðinu og víðar að á námskeið. "Við reynum að skapa okkur sérstöðu og halda námskeið sem fólk sækir í. Margir hafa áhuga á jóga og danskennslan í húsinu er öðruvísi en annars staðar. Það er svo mikil heilun í því að dansa - og ekki bara hliðar saman hliðar heldur líka þetta frjálsa form eins og tíðkast í orkudansi. Við vinnum mikið með hópefli og oft koma hingað vinkvennahópar, vinnufélagar eða nemendahópar. Við byrjuðum náttúrlega með okkar hugmyndir og okkar stundatöflu en svo fór fólk að panta ýmislegt sem við ákváðum að bregðast við og þannig er það í dag," segir Marta og ber blaðamanni hressandi jurtate með lakkrísrót, kanil og hunangi. Marta er kennari að mennt með framhaldspróf í leiklist og það nýtist henni vel í Púlsinum. Þegar Fréttablaðsfólk er á ferðinni eru þar einmitt krakkar í leiklistartíma og virðast njóta sín vel. "Leiklistin er svo mikið galdratæki. Það rúmast svo margt innan hennar," segir Marta og kveðst einnig vera á leið til Bandaríkjanna að fullnuma sig í Kripalu dansjóga. Heimkomin þaðan verður hún fyrsti dansjógakennarinn á Íslandi. Hún minnist líka á matreiðslunámskeið á grænu línunni. Þar fer Solla sem kennd hefur verið við Grænan kost á kostum, eftir því sem Marta lýsir. "Við erum með fullt af góðum kennurum og einn af þeim er Solla. Hún fer upp á leiksvið Púlsins og það er frábært að horfa á hana elda, hún er svo mikill fræðari." Marta og Friðrik hafa greinilega fundið upp á ýmsu til að hjálpa fólki að líða betur. Lógóið þeirra er táknrænt fyrir það sem þau eru að gera, hendur utan um sólarlitað hjarta. Benda má á heimasíðuna: www.pulsinn.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×