Innlent

Á fimmta hundrað manns til Kína

Á fimmta hundrað manns mun fara til Kína með forseta Íslands þegar hann verður þar í opinberri heimsókn dagana 15. til 22. maí. Kína er í stjórnmálasambandi við 165 ríki en aðeins 4-5 þjóðarleiðtogum er boðið þangað árlega. Vigdís Finnbogadóttir heimsótti Kína árið 1995 og Jiang Zemin, forseti Kína, kom hingað í eftirminnilega heimsókn sumarið 2002. Þá bauð hann forseta Íslands í heimsókn til Kína sem nú er komið að þótt nýr maður, Hu Jintao, sé tekinn við embætti forseta af Zemin. Að sögn Stefáns L. Stefánssonar forsetaritara er dagskrá heimsóknarinnar enn í smíðum en henni ætti að ljúka á næstu dögum. Það liggur því ekki fyrir hvaða embættismenn Ólafur Ragnar mun hitta meðan á heimsókninni stendur. Á fimmta hundrað manns fara með forsetanum til Kína, bæði ferðamenn og fulltrúar 96 fyrirtækja. Áhugi á Kínamarkaði hefur vaxið mjög en aðeins 10 fyrirtæki sendu fulltrúa með Vigdísi árið 1995. Aðspurður um þennan mikla áhuga Kínverja á Íslandi sagði Stefán ekkert eitt svar vera við því, en ljóst væri að samband og samskipti landanna hlytu að vera mjög góð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×