Innlent

Yfir 260 umsóknir hafa borist

Yfir 260 umsóknir um einbýlishúsalóðir í Lambaseli höfðu borist framkvæmdasviði borgarinnar á hádegi en þrjátíu lóðir eru í boði. Formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar segist vilja prófa þessa úthlutunarleið en honum hugnist betur útboðsleiðin. Þegar skrifstofum framkvæmdasviðsins lokaði í gær höfðu 140 umsóknir borist þannig að í morgun hafa yfir eitt hundrað umsóknir bæst í hópinn. Kallaður hefur verið út auka mannskapur til að fara yfir umsóknirnar. Fast verð hefur verið sett á lóðirnar sem kosta frá 3,5 milljón upp í 4,6 milljónir króna. Verðið er mjög lágt enda lóðirnar hugsaðar fyrir húsbyggjendur sem ætla síðan að búa í húsunum en ekki að byggja eingöngu til að græða. Alfreð Þorsteinsson, formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar, sagði í Íslandi í dag í gær að honum þætti eðlilegast að lóðir væru boðnar upp eins og gert hefði verið í Reykjavíkurborg fram að þessu. Hann kvaðst þó ekki ósáttur við að nota þessa aðferð núna; það væri í lagi að reyna hana í eitt skipti. Aðalatriðið væri samt að lóðirnar væru seldar á markaðsvirði líkt og flest öll nágrannasveitarfélögin væru komin inn á að gera.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×