Innlent

Hákon Eydal á sér ekki málsbætur

Hákon Eydal, banamaður barnsmóður sinnar Sri Rahmawati, hlaut sextán ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Hákoni er gert að greiða börnum Sri um tæplega 22 milljónir króna í skaðabætur. Það eru hæstu bætur sem dæmdar hafa verið í morðmáli. Verjandi Hákons telur hann ekki geta staðið skil á kröfunni. Hann eigi hvorki til þess fé né eignir. Ragnheiður Harðardóttir saksóknari segir niðurstöðuna í samræmi við það sem búist var við. Dómnum verður áfrýjað til Hæstaréttar en Hákon hafði krafist sýknar en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Hákon hefur setið í fangelsi frá því í júlí þegar hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald og dregst sá tími frá dómnum. Metskaðabætur Brynjar Níelsson, verjandi Hákons og hæstaréttarlögmaður, segir ekki fordæmi fyrir svo háum skaðabótum til aðstandenda. Þremur börnum Sri eru dæmdar misjafnlega háar skaðabætur. Það elsta sem er sextán ára fær samkvæmt dómnum um 5,5 milljónir, það næstelsta sem er fjórtán ára fær 6,2 og dóttur þeirra Sri og Hákonar sem er þriggja ára eru dæmdar rétt rúmar tíu milljónir. "Hákon mótmælti ekki kröfunum sem er ástæða ákvörðunar dómsins sem og kannski að börnin eru það ung," segir Brynjar en jafnframt að Hákon geti ekki greitt börnunum bæturnar. Hilmar Ingimundarson hæstaréttarlögmaður segir ríkið hlaupa undir bagga og greiða skaðabæturnar geri Hákon það ekki. "Börnin fá þó ekki þessa fjárhæð frá bótanefndinni því þar er hámarkið sex hundruð þúsund," segir Hilmar. Hægt sé að krefjast fjárnáms í eignir Hákonar. Verði það árangurslaust geti komið til gjaldþrots hans. Við lok gjaldþrotaskipta myndist firningarfrestur kröfunnar til tíu ára. Miðað við dóminn nú megi búast við að Hákon sitji inni í tólf ár. Ekki slegið af dómnum Brynjar segir sextán ára fangelsisdómnum áfrýjað þar sem rök séu fyrir því að refsingin ætti að vera vægari. "Verknaðurinn er framinn í geðshræringu og ákvæði eru í hegningarlögum um að það hafi áhrif á refsingu. Á það var ekki fallist nú," segir Brynjar. Í dómnum er greint frá niðurstöðu geðlæknis á andlegu ástandi Hákons. Geðlæknirinn mat hann sakhæfan og ábyrgan gerða sinna. Í áliti læknisins stendur að geðskoðun sýni ekki nein örugg einkenni sturlunar, rugls eða ranghugmynda. Skammvinn einkenni ofsóknarhugmynda og ofskynjanir virðist hafa komið fram á einstaka tímabilum en Hákon hafi þá örugglega verið í umtalsverðri fíkniefnaneyslu. Geðlæknirinn taldi að lýsing Hákons á sjálfum sér stangaðist á við álit náinna ættinga hans. Einnig að svo virtist sem Hákon hafi afneitað eða bælt mörg vandamál eða atburði sem yfirleitt trufli samvisku venjulegs fólks. Hann áleit að Hákon hafi skýr almenn skilmerki persónuleikatruflunar og lítið innsæi í eða skilning á hegðun sinni. Það hindri þó ekki sakhæfi hans. Iðraðist ekki gjörða sinna Auk voðaverks Hákons ræðst þyngd dómsins af því hvernig hann hagaði sér eftir morðið á Sri. Hákon reyndi að afmá öll merki morðsins og segir dómurinn meðferð hans á líkinu smánarlega. Hann hafi einsett sér að vera lögreglunni erfiður en hefði mátt vita að upp um hann kæmist. Hákon neitaði sök framan af lögreglurannsókninni og reyndi að villa um fyrir lögreglu í leitinni að líkinu eftir að hann hafði játað. Þetta auk skýrslu hans fyrir dómi og í geðrannsókninni þykir gefa til kynna að hann hafi ekki verið mjög sakbitinn eftir morðið á Sri. Sextán ár eða lífið? Sri Rahmawati var 33 ára gömul þegar hún lést. Hún var frá Indónesíu en hafði ásamt systur sinni og fjölskyldu hennar búið á Íslandi. Hákon og Sri kynntust fyrir fimm árum og bjuggu saman í fimm til sex mánuði. Saman eignuðust þau dóttur. Fyrir liggur að samband þeirra Sri og Hákons gekk erfiðlega. Úr dagbók lögreglunnar í Reykjavík má lesa um kærur Sri á hendur Hákonar fyrir ofbeldisverk og hótanir í hennar garð. Einnig eru til skjöl sem greina frá kvörtunum Hákonar vegna deilna þeirra á milli um umgegni við dótturina. Hákon bar því við fyrir dómi að hann hafi myrt Sri eftir að hún hafi hótað að hann fengi ekki framar að sjá dóttur þeirra. Andleg líðan hans, misgjörðir og ranglæti Sri hafi ollið því. Héraðsdómur fellst ekki á það sjónarmið Hákons og segir gögn málsins í engu styðja ásakanir hans. Hákon ósannfærandi Ekki verður séð að Sri hafi misboðið Hákoni þann afdrifaríka morgun þegar hann myrti hana, er niðurstaða Héraðsdóms. Lýsing Hákons á hugarástandi sínu þegar hann framdi morðið sé mótsagnakennt og ósannfærandi. "Atlaga hans að Sri Rahmawati var heiftarleg og bersýnilegt er, að hann ætlaði sér að svipta hana lífi. Ekki þykir þó sannað, að hann hafi ásett sér það fyrr en skömmu fyrir voðaverkið og verður að byggja á þeim framburði hans að hann hafi ráðist á konuna eftir að þeim varð sundurorða," segir í dómnum. Sextán ár eru því talin hæfileg refsing. Lík Sri Rahmawati fannst í djúpri og þröngri hraunsprungu í Almenningi fyrir sunnan Hafnarfjörð í þriðja ágúst mánuði eftir að Hákon myrti hana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×