Innlent

Uppsögn EES-samningsins skoðuð

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra skýrði frá því á Alþingi í gær að Evrópustefnunefnd Alþingis muni á næstunni ræða hugmyndir um uppsögn EES-samningsins. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er formaður í nefndinni. Hann sagði í viðtali við Fréttablaðið að rætt yrði um hugmyndir sem Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, hefði varpað fram. "Nefndin er ekkert að ræða þær til þess að taka afstöðu til þessa, heldur til þess að afla sér upplýsinga á þessu stigi málsins. Við munum ræða sjónarhorn Ragnars varðandi EES-samninginn," sagði Björn. Háskóli Íslands og háskólar á Norðurlöndunum gerðu úttekt þar sem vakin var athygli á þremur kostum sem Íslendingar hefðu varðandi Evrópumál að sögn Ragnars. "Í fyrsta lagi getum við gengið í Evrópusambandið. Í öðru lagi getum við reynt að hanga í Evrópska efnahagssvæðinu meðan það lafir, en það veikist ef Norðmenn ganga í ESB, sem er líklegt í framtíðinni. Í þriðja lagi getum við kannað kosti þess að ganga úr EES, sem er mjög kostnaðarsamt, nú eða í framtíðinni. Það er mjög ánægjulegt að Alþingi Íslendinga hyggst nú skoða þennan þriðja kost af alvöru," segir Ragnar. Hann segir að helstu kostirnir við að segja upp samningnum séu þeir að þá losnuðu Íslendingar við ýmsar byrðar sem honum fylgi. "Við myndum losna við bein fjárútgjöld sem nema allt að tveimur milljörðum á ári. Það eru líka byrðar í formi reglugerða og tilskipana sem við verðum að taka upp á Íslandi hvort sem okkur líkar betur eða ver. Samningnum fylgja einnig vissar tæknilegar hindranir á innflutningi frá löndum utan ESB sem við verðum að búa við vegna þess að ESB gerir alls kyns formlegar, merkingarlegar, pökkunarlegar og gæðalegar kröfur til varnings til þess að draga úr innflutningi," segir Ragnar. Hann segir að ókostirnir við að ganga úr EES séu að þá þurfum við að endursemja um viðskiptasamning okkar að ESB því þá muni fyrri samningar taka gildi. "Það er hins vegar hægt að benda á Sviss sem er inni í miðju ESB sem ekki er í EES og ekki ESB. Þeir gerðu sérsamninga sem þeim finnst henta sér. Það er mjög sennilegt að við getum gert slíka samninga," segir Ragnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×