Innlent

Álag og forgangsröðun valda töfum

Álag og forgangsröðun valda töfum á minni háttar sakamálum, segir sýslumaðurinn í Hafnarfirði. Svona verði þetta áfram, segir hann, þótt héraðsdómari segi embættið hafa brotið bæði lög og mannréttindi þegar það dróst í fjórtán mánuði að gefa út ákæru. Héraðsdómur Reykjaness frestaði á föstudag ákvörðun um refsingu tveggja 19 ára pilta sem ákærðir höfðu verið fyrir innbrot og annar þeirra einnig fyrir ölvunarakstur. Brotin frömdu þeir þegar þeir voru 17 ára, í nóvember 2003, og lauk rannsókn málsins í mánuðinum á eftir. Það liðu hins vegar 14 mánuðir þar til ákæra var gefin út og sagði dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness í dómi sínum að dráttur þessi væri óhæfilegur og óskýrður. Hann bryti í bága við lög um meðferð opinberra mála, væri í andstöðu við stjórnarskrána og Mannréttindasáttmála Evrópu. Guðmundur Sophusson, sýslumaður í Hafnarfirði, segir að hjá embættinu séu alvarlegri og erfiðari mál látin vera í forgangi og minni mál látin bíða á meðan. Þessi forgangsröðun sé að ósk ríkissaksóknara. Guðmundur segir fjölda mála hafa aukist mjög en engu að síður sé málastaðan hjá hans embætti góð. Hann segir sömu stöðu hjá öðrum sýslumannsembættum. Þá segir Guðmundur að vegna ástandsins, fjölda mála og fárra starfsmanna eigi eitthvað í þá veru sem hér um ræðir eftir að gerast aftur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×