Innlent

Handtekinn með mikið magn vopna

Riffill, öxi og hnífar voru meðal vopna sem lögreglan í Reykjavík fann í bíl manns sem er grunaður um að hafa framið tvö vopnuð rán í borginni í gær og þrjú sjoppurán fyrr í vikunni. Hann hefur sennilega verið að leggja á ráðin um enn eitt ránið þegar lögreglumenn sáu bíl vera að sniglast á torkennilegan hátt umhverfis verslunamiðstöðina í Suðurveri. Við nánari athugun þótti þeim sem ökumaðurinn líktist lýsingum starfsfólks á ránsstöðunum á ræningjanum. Maðurinn var því handtekinn á staðnum og fannst talsvert af peningum á honum auk hettu til að hylja andlitið. Hann gisti fangageymslur í nótt og hefur í morgun játað á sig flest ránanna. Þótt maðurinn hafi í öllum tilvikum sýnt tilburði til að hylja andlit sitt sýna eftirlitsmyndavélar úr fleiri en einum ránsstaðanna að þar var sami maður á ferð. Maðurinn er um þrítugt og er fréttastofunni ekki kunnugt um hvort hann hefur áður gerst brotlegur við lög. Þrátt fyrir að hann hafi í öllum tilvikum hótað afgreiðslufólki með einhvers konar vopnum vann hann engum líkamlegt mein, en mörgum var illa brugðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×