Innlent

Fjórir afrískir karlmenn stöðvaðir

Fjórir afrískir karlmenn voru stöðvaðir í Leifsstöð á laugardag. Tveir þeirra verða sendir úr landi í dag en tveir verða líklega ákærðir fyrir brot á útlendingalögum.  Tveir Kamerúnar komu til landsins á laugardag frá Þýskalandi í gegnum Bretland. Þeir voru með námsmannadvalarleyfi í Svíþjóð. Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, segir að mennirnir hafi verið vita peningalausir við komuna og ekki getað sýnt fram á nokkurn tilgang með komu sinni, né heldur hvernig þeir hygðust framfleyta sér hér meðan á dvöl þeirra stæði. Ákveðið var að meina þeim landgöngu og verða þeir sendir til Svíþjóðar í dag þar sem þeir hafa dvalarleyfi, sem fyrr segir. Sama dag komu Nígeríumaður og Kamerúni hingað til lands frá Ósló. Kamerúninn reyndist vera með fölsuð skilríki og er Nígeríumaðurinn grunaður um að hafa aðstoðað hann við að komast yfir skilríkin og koma honum til landsins. Nígeríumaðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær til morgundagsins en mál Kamerúnans er enn til skoðunar hjá lögreglu. Leiða má líkur að því að mennirnir verði ákærðir fyrir brot á útlendingalögum. Jóhann R. Benediktsson segir að síðan í haust hafi tollgæslan á Keflavíkurflugvelli haft afskipti af fólki í hverri viku þar sem grunur leikur á að tilgangur þeirra með komunni til landsins sé misjafn eða að skilríki þeirra séu fölsuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×