Innlent

Þurfa að borga mun minna

Baugi var gert að greiða lægri upphæð vegna endurálagningar skatta en félagið hafði gert ráð fyrir. Baugur sendi síðastliðinn föstudag bréf til helstu viðskiptafélaga sinna og banka þar sem fram kemur að félagið hafi greitt 140 milljónir króna vegna endurálagningar skatta, í stað 282 milljóna eins og fram hafði komið í tilkynningu frá félaginu. Þá eru samkvæmt heimildum upphæðir sem Baugur taldi sig þurfa að greiða vegna þriðja aðila ekki innheimtar hjá Baugi heldur beint hjá þeim aðilum. Þar er meðal annars um að ræða endurálagningu eigenda Hagkaupa og Bónuss, en höfuðágreiningur endurálagningarinnar er vegna sameiningar fyrirtækjanna. Upphæðin sem innheimt var hjá Baugi var því 140 milljónir. Heildarupphæðin með endurálagningu vegna þriðja aðila nam 464 milljónum króna. Af þeim 140 milljónum sem Baugi var gert að greiða eru 110 milljónir vegna ágreiningsins um verðmat á Bónusi, þegar fyrirtækið sameinaðist Hagkaupum undir merkjum Baugs. Indiriði Þorláksson ríkisskattstjóri segir embættið ekki hafa gefið út neinar tölur varðandi endurálagningunna og sér vitanlega hafi ekkert breyst af hálfu embættisins frá endurálagningunni um áramót. Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, vildi ekki tjá sig um málið. Ágreiningi um endurálagninguna hefur verið vísað til yfirskattanefndar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×