Innlent

Flóðbylgja gæti náð til Grindavíku

Gjósi Katla af öllum mætti gæti flóðbylgja skollið á suðurströnd landsins. Þessi möguleiki er fjarlægur en engu að síður raunhæfur og út frá honum verður unnið þegar aðgerðir vegna hugsanlegs Kötlugoss verða ákveðnar. Von er á skýrslu Almannavarna ríkisins um mögulegar afleiðingar goss í Kötlu en með henni verða mönnum möguleg áhrif betur ljós. Yfirmenn almannavarnamála í Vík í Mýrdal, Hvolfsvelli, Vestmannaeyjum, Selfossi og á Reykjanesi hafa þó þegar gefið málinu gaum. "Við vitum ekki nákvæmlega á hverju við eigum von en þurfum að vera við öllu búin," segir Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður í Árnessýslu. Hugsanlega þarf að rýma byggðirnar við ströndina, allt frá Vík til Grindavíkur. Ólafur Helgi leggur ríka áherslu á að fólk verði upplýst um alla möguleika um leið og því sé gerð grein fyrir að ekki sé þar með sagt að eitthvað gerist. "Við erum ekki að tala um eitthvað sem verður heldur eitthvað sem gæti hugsanlega orðið." Ekki hefur áður verið hreyft við þeim möguleika að áhrif Kötlugoss geti náð jafn langt með suðurströndinni og nú er talið hugsanlegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×