Innlent

Fékk skilorð með skilyrðum

Nítján ára piltur var, í Héraðsdómi Reykjavíkur, dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir vopnað rán í Hringbrautarapóteki með gasskammbyssu. Þá var hann sakfelldur fyrir að leggja haglabyssu að andliti manns í heimahúsi. Tólf mánuðir refsingarinnar eru skilorðsbundnir í þrjú ár með þeim skilyrðum að pilturinn sæti umsjón á skilorðstímanum. Á skilorðstímanum má pilturinn ekki neyta áfengis eða deyfilyfja og er krafist að hann sæti meðferð á stofnun til að venja hann af fíkn sinni. Þá þarf hann að sæta læknismeðferð. Sveinn Andri Sveinsson, verjandi piltsins, fagnar niðurstöðu dómsins sem hann segir rétta og sanngjarna. "Því miður er þessu úrræði allt of sjaldan beitt," segir Sveinn. Tilgangur þessa sérstaka skilorðs er til að tryggja að pilturinn sæti þeirri læknismeðferð sem þarf til að draga úr líkunum á því að hann fremji ný brot. Geðlæknir segir piltinn sakhæfan þrátt fyrir nokkra geðsjúkdóma en aftur á móti sé mjög nauðsynlegt að sjúkdómar piltsins verði meðhöndlaðir. Annars sé einsýnt að afbrigðileg og andfélagsleg hegðun hans muni halda áfram. Pilturinn kom í Hringbrautarapótek vopnaður gasskammbyssu í byrjun september og hótaði starfsstúlku og lyfsala lífláti, en hann vildi fá afhent rítalín. Þá hefur hann hótað og tekið starfsmann veitingastaðar hálstaki og otað hníf að bensínafgreiðslumanni. Í október strauk pilturinn úr gæsluvarðhaldi þegar átti að flytja hann úr fangelsinu á Skólavörðustíg á Litla-Hraun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×