Innlent

Frjáls fjölmiðlun til rannsóknar

Jón H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, segir fjölda mála vera til rannsóknar sem tengist gjaldþroti Frjálsrar fjölmiðlunar, fyrirtækinu og forsvarsmönnum þess. Ekki hafi þó verið nægt tilefni til að rannsaka eitt ákveðið mál tengt gjaldþrotinu þar sem skiptastjóri óskaði eftir aðstoð embættisins við nálgast gögn um fjárreiður Time Invest í Lúxemborg. "Það er fjöldi mála sem tengjast starfsemi forsvarsmanna Frjálsrar fjölmiðlunar sem tekin voru til rannsóknar um og eftir gjaldþrotið," segir Jón. Aðspurður segir hann marga hafa verið yfirheyrða og það kunni fjöldi manna að tengjast rannsókn þessara mála þegar upp verði staðið, og nefnir hann þar forsvarsmenn auk annarra sem störfuðu fyrir þá. Málin sem eru til rannsóknar tengjast ætluðum auðgunarbrotum svo og brotum á skattalöggjöfinni. "Ég fór fram á að þeir athuguðu hvort gögn um Time Invest væri til en þeir höfnuðu því. Þeir telja sig ekkert geta gert og ég verð að sæta því," segir Sigurður Gizurarson, skiptastjóri þrotabús Frjálsrar fjölmiðlunar. Jón H. Snorrason segir rökstuddan grun verða að vera til staðar svo hægt sé að hefja rannsókn. Sá grunur hafi verið fyrir hendi í fjölda mála tengdum Frjálsri fjölmiðlun en ekki í þessu einstaka máli. Jón segir skiptastjóra hugsanlega geta styrkt grunsemdir með frekari vinnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×