Innlent

Íslendingar þekkja hamfarir

Neyðarhjálp úr norðri nefnist sameiginlegt átak í landssöfnun sem formlega hófst í gær vegna hamfaranna í Asíu. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, er verndari söfnunarinnar. Vigdís segir Íslendinga geta á ýmsan hátt sett sig í spor þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á hamförunum og sé skemmst að minnast snjóflóðanna á Flateyri og Súðavík. Þá er líka að minnast eldgossins í Vestmannaeyjum og þess hversu marga hafið hefur tekið. Vigdís segist finna mikið til með þeim sem eiga um sárt að binda vegna hamfaranna, ekki síst börnunum sem þurfa að lifa með minningunum um langan tíma. Mörg þeirra hafa misst foreldra sína og eiga ekki í nein hús að vernda til að hlúa að tilfinningum sínum. Að söfnuninni koma þrjár sjónvarpsstöðvar, þrjár verslunarmiðstöðvar, níu útvarpsstöðvar, þrjú dagblöð, listamenn, fyrirtæki og almenningur. Söfnunarfénu verður varið til neyðaraðstoðar nú og uppbyggingar á næstu árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×