Innlent

Teknir með 10 kíló af hvítu efni

Tveir íslenskir sjómenn af togaranum Hauki ÍS hafa verið úrskurðaðir í allt að sex mánaða gæsluvarðhald eftir að u.þ.b. tíu kíló af hvítu fíkiniefni fannst í fórum þeirra í Þýskalandi á fimmtudag. Haukur ÍS var í sölutúr í Þýskalandi og er talið að smyglararnir hafi þar sett sig í samband við sjómennina tvo og boðið þeim, gegn gjaldi eða hluta í efninu, að koma því til Íslands en lögregla ytra mun hafa haft pata af þessari sendingu sem er upprunnin í Hollandi. Þýskir fíkniefnalögreglumenn með leitarhunda stormuðu um borð í togarann og fundu brátt efnið í vistarverum skipverjanna tveggja og handtóku þá umsvifalaust. Ekki er staðfest hvaða efni um er að ræða en það er sama hvort það er kókaín eða amfetamín, andvirði þess í smásölu nemur tugum og jafnvel hundruðum milljóna króna. Annar sjómaðurinn mun áður hafa komist í kast við fíkniefnalögregluna hér á landi vegna smygltilraunar. Enginn annar úr áhöfn Hauks er grunaður um aðild að málinu og er togarinn væntanlegur til Reykjavíkur í nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×