Innlent

Rannsókn vegna bruna í biðstöðu

Rannsókn lögreglunnar á Sauðárkróki á orsökum brunans sem varð ungum manni að bana í byrjun desember er í biðstöðu. Björn Mikaelsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, segir að enn sé beðið eftir niðurstöðum úr sýnatöku tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík. Lítið sé hægt að aðhafast í málinu þar til þau gögn komi. Lögreglan hefur þegar tekið skýrslu af fjölda manns. Björn segir að vel geti verið að niðurstöður sýnatökunnar gefi til kynna að það þurfi að taka skýrslur af einhverjum aftur. Hann segir ljóst að eldurinn hafi ekki kviknað út frá rafmagni. Líklegast hafi hann því kviknað af mannavöldum og því verið um íkveikju að ræða en hvort hún varð af gáleysi eða ekki sé ómögulegt að segja. Björn segir að fyrstu rannsóknir bendi ekki til þess að eldhvetjandi efni hafi verið þar sem eldurinn kviknaði. Ungur maður sem slapp ómeiddur úr brunanum fékk réttarstöðu grunaðs manns skömmu eftir að bruninn varð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×