Innlent

Neituðu að fara að heiman

Nokkrir íbúa þriggja húsa við Dísarland í Bolungarvík neituðu að yfirgefa heimili vegna snjóflóðahættu þegar lögreglu bar að garði síðasta sunnudagskvöld. Alls voru það sex sem ekki yfirgáfu heimili sín, þar á meðal eitt barn, þrettán ára gömul stúlka. Gylfi Þór Gíslason, varðstjóri hjá lögreglunni í Bolungarvík, segir að í kjölfarið verði heimilisfeðurnir á hverjum stað boðaðir til skýrslutöku um málið, en gerði ekki ráð fyrir frekari eftirmálum. "Það eru engin viðurlög við þessu," segir hann og bætir við að ákveðið hafi verið að grípa ekki til handtaka á sunnudagskvöldið, en lögregla hefur til þess heimild fari fólk ekki að boðum hennar. "En það er háð mati hverju sinni." Ásgeir Sólbergsson sparisjóðsstjóri var einn þeirra sem ekki fóru að heiman, en hann segir ekki hafa verið hættu á ferðum í norðaustanáttinni sem var ríkjandi þá um kvöldið. "Það var okkar mat, sem höfum búið þarna í 25 ár," sagði hann og taldi að ekki væri hætta á ferðum nema að fennti í norðanátt. "Það var hins vegar hætta á gamlárskvöld og menn hræddir fram undir kvöldmatarleyti, en þá var ekkert rætt um rýmingu húsa," sagði Ásgeir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×