Fastir pennar

Og svo var smokknum slett

Inni við beinið er ég íhaldssamur. Þá á ég við þennan þráláta kvilla að vera vanabundinn, hafa efasemdir um nýjungar, vera seinn að kveikja á frumlegum athöfnum og viðhorfum. Vilja helst hafa sem flest í sama farinu, jafnvel löngu eftir að það er orðið úrelt og úr sér gengið. Kannske fylgir þetta aldrinum eða er í genunum. Þó er ég allur af vilja gerður til að laga mig að breyttum lifnaðarháttum og hverskonar tækniframförum. Og þykist vera nógu frjálslyndur til að skilja að heimurinn er að breytast og nútíminn verður að fá að taka út sitt gelgjuskeið.

Börnin sem áður léku sér með "gullin sín", ganga nú um með headfón og höggva mann og annan í play station. Unglingarnir sem áður burðuðust með eldheitar hugsjónir ráfa nú um í Smáralind og Kringlunni. Unga fólkið í tilhugalífinu sem áður fyrr skellti sér í Þórskaffi í leit að félagsskap styður sig við barinn og er hætt að dansa. Fullorðna fólkið er hætt að spila og spjalla en situr þögult fyrir framan sjónvarpið, þangað til það geispar af syfju eða geispar golunni.

Sjálfur er ég hættur að fara í heimsóknir nema tilneyddur á tyllidögum og hitti helst ekki neinn sem ég þekki, nema þegar ég verð stopp á rauðu ljósi og kannast við manninn í bílnum við hliðina. Skrúfa niður rúðuna og hrópa: blessaður. Lengra ná þau ekki, þessi mannlegu samskipti, sem voru okkur svo dýrmæt og ég sakna þeirra, kannske af því ég er íhaldssamur í eðli mínu.

Það sama gildir um listina og bókmennntirnar. Framúrstefna og absúrdismi var mér lengi óskiljanlegt fyrirbæri. Klessu­málverk, atomljóð og nútímatónlist voru heitin og orðin yfir þau listaverk, sem íhaldssamt fólk notaði yfir þá list sem það skildi ekki og vildi ekki viðurkenna. Fordómarnir, fortíðin, formúlurnar um hina einu sönnu list voru löngu mótaðar og ég hef verið að bisa við það allt mitt líf að losna undan þessum álögum og skilja nýsköpunina. Skilja nútímann og framtíðina, sem menn segja að liggi í þessu frumlega framlagi til frjórrar listar. Nú í seinni tíð er ég hættur að frussa og hneykslast, en segi gáfumannlega: athyglisvert.

Svo er það sjónvarpið. Þeir eru auvitað löngu hættir að sýna Dallas og Húsið á sléttunni. Nú er völ á þremur eða fjórum sjónvarpsstöðvum, sem allar bjóða upp á glæpa- eða lögregluþætti, þar sem einhver er drepinn í upphafi. Það er útgangspunkturinn á kvöldstemningunni á íslenskum heimilum að fylgjast með einu eða tveim morðum að meðaltali í hvert skipti sem heimilisfólkið sest niður til að stytta sér stund. Uppörvandi, ekki satt!

Þannig að ég hef stundum flúið yfir í Strákana og Sylvíu nótt, m.a til að geðjast unglingunum á heimilinu og laga mig að nútímanum og humornum sem nú er líka nýr af nálinni og öðru vísi en gamli úrelti húmorinn, sem þykir ekki brúklegur lengur.

Þetta eru svosem saklaus ærsl og aulafyndni, fimmaurabrandarar, sem eru ekki einu sinni fimm auranna virði. En ég læt sem ekkert sé, til að laga mig að frjálslyndinu og nútímanum. Uppákomur og uppátæki, sjálfsagt gert til að storka og ögra, jafnvel ofbjóða og blöskra og af því að Sylvía Nótt fékk sérstaka viðurkenningu nýlega fyrir þættina sína, staldraði ég við, þegar hún fór á flug, nú í vikunni, og var komin með útlenskan karlmann upp á arminn. Segir ekki af þeirri atburðarás annað en mér sýndist þau vera komin að Gullfossi, þegar Sylvía bauð upp á sig í baksætinu og til sannindamerkis, sletti rekkjunauturinn smokknum framan í myndavélina, rétt eins og víkingarnir hengdu haus fórnarlambsins á spjótsoddinn, þegar vígið hafði verið framið.

Ég verð að viðurkenna að nú vógu þau salt, framúrstefna Sylvíu og fordómarnir í sjálfum mér. Átti ég að hlæja eða fussa, átti ég að láta mér fátt um finnast um þessa smekkleysu, af því hér var ungt fólk að bjóða íhaldsseminni byrginn? Ung sjónvarpskona að slá í gegn. Er ég kannske einn um það að hneykslast á þessari senu, af því ég er ekki nógu "kúl" til að skilja listina eða fyndnina? Til að skilja að þessi matreidda dægrastytting sem upp á er boðið felst í því að ganga fram af fólki eins og mér. Fólki sem skilur hvorki framúrstefnu né fyndni. Hvað þá verðlaunin sem fyrir þetta fást.






×