Afríkuland á uppleið 29. desember 2004 00:01 Hvar í veröldinni skyldi nú vera verst að búa? Fyrir nokkru birtust nýjar upplýsingar um málið víðs vegar að og fóru um heiminn eins og eldur í sinu. Tölurnar voru reistar á vísbendingum um efnahag og ýmis önnur lífsgæði: heilbrigði, frelsi, atvinnuöryggi, fjölskyldulíf, veðurfar, stjórnmálaástand og öryggi, jöfnuð kynjanna og samheldni. Það er ekki heiglum hent að slá máli á alla þessa þætti. Efnahaginn er að vísu auðvelt að meta með tekjum, heilbrigði með langlífi og jafnrétti kynjanna með launamun karla og kvenna. Málið vandast til muna, þegar leikurinn berst t.d. að fjölskyldulífi: þar var tíðni hjónaskilnaða höfð til marks um lélegt fjölskyldulíf, enda þótt skilnaðir ósamlyndra hjóna séu yfirleitt einmitt til þess gerðir að forða þeim frá fálegu fjölskyldulífi. Hvað um það, Írland hafnaði efst á blaði: bezt að búa þar, segja menn. Ísland er í sjöunda sæti lífsgæðalistans og Bandaríkin í þrettánda. Evrópulönd skipa níu af tíu efstu sætunum. Hvernig er umhorfs á botninum? Neðstu þrjú sætin af 111 á listanum skipuðu Simbabve, Haítí og Tansanía. Simbabve hef ég lýst áður á þessum stað: þar er vandinn sá í sem allra skemmstu máli, að forseti landsins, Robert Mugabe, virðist vera hrokkinn upp af standinum. Þetta fallega land, sem framtíðin brosti við fyrir fáeinum árum, hangir nú á heljarþröm: það er nú svo djúpt sokkið, að þriðjungur barna á skólaskyldualdri hefur hrakizt burt úr skólunum, og það í landi, sem státaði áður af einu bezta skólakerfi í allri Afríku. Saga Haítís er á hinn bóginn samfelld hörmungarsaga frá fyrstu tíð. Landið hefur verið sjálfstætt samfleytt síðan 1804, en þeim mun meiri hefur áníðslan verið af völdum innlendra rummunga. Fjórir menntamenn af hverjum fimm flýja land við fyrsta tækifæri, og annað er eftir því – nema myndlistin: hún er fín, og músíkin. En Tansanía? Á hún heima í þessum hópi? – á næsta bæ við Nígeríu í fjórða neðsta sæti listans. Tansanía líður fyrir fortíðina. Landsfaðirinn Júlíus Nyerere var ýmsum góðum kostum búinn og stillti til friðar á milli ólíkra kynbálka, sem ella hefðu hneigzt til að elda grátt silfur. En hann bar ekki næmt skyn á efnahagsmál heldur kaus að sækja sér fyrirmyndir að hagstjórn til kommúnistaríkja og reyrði efnahagslíf lands síns í fjötra. Það er yfirleitt nógu slæmt fyrir land að vera í Afríku (lamandi hiti víðast hvar, lélegir nágrannar o.s.frv.), og áætlunarbúskapur eftir sovézkri uppskrift gerði illt verra. Grannlöndin Kenía og Úganda fóru betur af stað árin eftir sjálfstæðistökuna, en síðan seig á ógæfuhliðina einnig þar vegna óstjórnar í Keníu og óaldar í Úgöndu, þar sem Ídí Amín hershöfðingi ruddist til valda 1971, slátraði 300.000 manns og lagði landið í rúst. Kenía, Tansanía og Úganda eru í rauninni eitt land: þarna býr sama fólkið og talar sömu tungu, svahílí. Bretar og Þjóðverjar drógu landamærin milli þeirra af handahófi 1886 og skiptu þeim á milli sín. Tansanía hlaut sjálfstæði 1961, Úganda 1962 og Kenía 1964. Löndin stofnuðu síðan með sér Austur-Afríkubandalag 1967 til að greiða fyrir viðskiptum sín í milli, en það entist aðeins í tíu ár. Tansaníuher réðst inn í Úgöndu 1979 og steypti Amín af stóli, það var þarft verk. Landamærunum var lokað: til að komast bæjarleið milli landanna þriggja þurftu menn eftir það að fara um London. Nú hafa horfurnar skánað. Úganda byrjaði að rétta úr kútnum 1986, þegar Músevení forseti komst til valda; hann situr enn að völdum, rétt kjörinn, og hefur látið ýmislegt gott af sér leiða. Úganda er nú ríkast landanna þriggja. Kjósendur í Keníu hrundu vondri stjórn af höndum sér í hittiðfyrra og binda nú vonir við nýjan forseta, og hans bíður vandasamt verk: að uppræta landlæga spillingu, sem hefur dregið þrótt úr efnahagslífi landsins og flæmt erlenda fjárfesta á brott og ferðamenn. Tansanía er enn sem fyrr fátækasta landið í hópnum, en er á réttri leið. Fjórðungur landsins hefur verið lagður undir þjóðgarða með fjölskrúðugu villidýralífi, og ferðamenn flykkjast þangað. Austur-Afríkusambandið var endurlífgað fyrir þrem árum og þá að evrópskri fyrirmynd. Nú eftir áramótin verða nær öll viðskipti milli landanna frjáls, loksins: einn markaður handa 90 milljónum manns. Og innan tíðar munu löndin þrjú sameinast um eina mynt sem eitt land væri. Bara það takist eins vel og í Evrópu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið „Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun 27-faldur hagnaður!? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun Laumu risinn í landsframleiðslunni Ása Berglind Hjálmarsdóttir Skoðun Er barnið sjúkt í sykur? Elísabet Konráðsdóttir,Margrét Sigmundsdóttir Skoðun Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Breytum þessari sérhagsmunagæslu Aðalsteinn Leifsson Skoðun Bleiki fíllinn í herberginu Karólína Helga Símonardóttir Skoðun Hæstvirtur dómsmálaráðherra, við ætlumst til meira af þér Matthías Kormáksson Skoðun Stúlkur eiga undir högg að sækja í nauðgunarmálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun
Hvar í veröldinni skyldi nú vera verst að búa? Fyrir nokkru birtust nýjar upplýsingar um málið víðs vegar að og fóru um heiminn eins og eldur í sinu. Tölurnar voru reistar á vísbendingum um efnahag og ýmis önnur lífsgæði: heilbrigði, frelsi, atvinnuöryggi, fjölskyldulíf, veðurfar, stjórnmálaástand og öryggi, jöfnuð kynjanna og samheldni. Það er ekki heiglum hent að slá máli á alla þessa þætti. Efnahaginn er að vísu auðvelt að meta með tekjum, heilbrigði með langlífi og jafnrétti kynjanna með launamun karla og kvenna. Málið vandast til muna, þegar leikurinn berst t.d. að fjölskyldulífi: þar var tíðni hjónaskilnaða höfð til marks um lélegt fjölskyldulíf, enda þótt skilnaðir ósamlyndra hjóna séu yfirleitt einmitt til þess gerðir að forða þeim frá fálegu fjölskyldulífi. Hvað um það, Írland hafnaði efst á blaði: bezt að búa þar, segja menn. Ísland er í sjöunda sæti lífsgæðalistans og Bandaríkin í þrettánda. Evrópulönd skipa níu af tíu efstu sætunum. Hvernig er umhorfs á botninum? Neðstu þrjú sætin af 111 á listanum skipuðu Simbabve, Haítí og Tansanía. Simbabve hef ég lýst áður á þessum stað: þar er vandinn sá í sem allra skemmstu máli, að forseti landsins, Robert Mugabe, virðist vera hrokkinn upp af standinum. Þetta fallega land, sem framtíðin brosti við fyrir fáeinum árum, hangir nú á heljarþröm: það er nú svo djúpt sokkið, að þriðjungur barna á skólaskyldualdri hefur hrakizt burt úr skólunum, og það í landi, sem státaði áður af einu bezta skólakerfi í allri Afríku. Saga Haítís er á hinn bóginn samfelld hörmungarsaga frá fyrstu tíð. Landið hefur verið sjálfstætt samfleytt síðan 1804, en þeim mun meiri hefur áníðslan verið af völdum innlendra rummunga. Fjórir menntamenn af hverjum fimm flýja land við fyrsta tækifæri, og annað er eftir því – nema myndlistin: hún er fín, og músíkin. En Tansanía? Á hún heima í þessum hópi? – á næsta bæ við Nígeríu í fjórða neðsta sæti listans. Tansanía líður fyrir fortíðina. Landsfaðirinn Júlíus Nyerere var ýmsum góðum kostum búinn og stillti til friðar á milli ólíkra kynbálka, sem ella hefðu hneigzt til að elda grátt silfur. En hann bar ekki næmt skyn á efnahagsmál heldur kaus að sækja sér fyrirmyndir að hagstjórn til kommúnistaríkja og reyrði efnahagslíf lands síns í fjötra. Það er yfirleitt nógu slæmt fyrir land að vera í Afríku (lamandi hiti víðast hvar, lélegir nágrannar o.s.frv.), og áætlunarbúskapur eftir sovézkri uppskrift gerði illt verra. Grannlöndin Kenía og Úganda fóru betur af stað árin eftir sjálfstæðistökuna, en síðan seig á ógæfuhliðina einnig þar vegna óstjórnar í Keníu og óaldar í Úgöndu, þar sem Ídí Amín hershöfðingi ruddist til valda 1971, slátraði 300.000 manns og lagði landið í rúst. Kenía, Tansanía og Úganda eru í rauninni eitt land: þarna býr sama fólkið og talar sömu tungu, svahílí. Bretar og Þjóðverjar drógu landamærin milli þeirra af handahófi 1886 og skiptu þeim á milli sín. Tansanía hlaut sjálfstæði 1961, Úganda 1962 og Kenía 1964. Löndin stofnuðu síðan með sér Austur-Afríkubandalag 1967 til að greiða fyrir viðskiptum sín í milli, en það entist aðeins í tíu ár. Tansaníuher réðst inn í Úgöndu 1979 og steypti Amín af stóli, það var þarft verk. Landamærunum var lokað: til að komast bæjarleið milli landanna þriggja þurftu menn eftir það að fara um London. Nú hafa horfurnar skánað. Úganda byrjaði að rétta úr kútnum 1986, þegar Músevení forseti komst til valda; hann situr enn að völdum, rétt kjörinn, og hefur látið ýmislegt gott af sér leiða. Úganda er nú ríkast landanna þriggja. Kjósendur í Keníu hrundu vondri stjórn af höndum sér í hittiðfyrra og binda nú vonir við nýjan forseta, og hans bíður vandasamt verk: að uppræta landlæga spillingu, sem hefur dregið þrótt úr efnahagslífi landsins og flæmt erlenda fjárfesta á brott og ferðamenn. Tansanía er enn sem fyrr fátækasta landið í hópnum, en er á réttri leið. Fjórðungur landsins hefur verið lagður undir þjóðgarða með fjölskrúðugu villidýralífi, og ferðamenn flykkjast þangað. Austur-Afríkusambandið var endurlífgað fyrir þrem árum og þá að evrópskri fyrirmynd. Nú eftir áramótin verða nær öll viðskipti milli landanna frjáls, loksins: einn markaður handa 90 milljónum manns. Og innan tíðar munu löndin þrjú sameinast um eina mynt sem eitt land væri. Bara það takist eins vel og í Evrópu.
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun